Magnvara

Magnvara Lýsis

Starfsemi LÝSIS felst að mestu leyti í útflutningi á ýmsum fiskiolíum, þótt fyrirtækið sé ef til vill þekktast fyrir afurðirnar sem seldar eru í verslunum á Íslandi. LÝSI flytur meðal annars út þorskalýsi, túnfisklýsi, laxalýsi, ómegalýsi, hákarlalýsi og þykkni. Þessar vörur eru seldar í stórum einingum og eru kaupendur erlendir framleiðendur sem endurpakka afurðunum eða nota þær sem hráefni.

Magnvaran er aðallega ætluð til manneldis, en þó framleiðir fyrirtækið einnig lýsi og lifrarmjöl fyrir fiskeldi og sem dýrafóður. Nýjasti afurðaflokkurinn leit dagsins ljós undir lok árs 2008 þegar framleiðslulína fyrir þykkni var tekin í notkun. Þykkni er meðal annars notað í hylki og er þá búið að auka hlut hinna eftirsóttu fitusýra, DHA og EPA, í blöndunni.

Fóðurlýsi

Fóðurlýsi hefur um árabil verið vel þekkt meðal hestamanna og hin síðari ár hafa gæludýraeigendur einnig áttað sig á kostum þess. Lýsi hefur ekki einungis góð áhrif á mannfólkið, heldur einnig á dýr. Feldurinn verður áferðarfallegri og ómega-3 fitusýrurnar draga úr áhrifum ýmissa kvilla, svo sem liðagigtar og exems.